TIL BAKA
Hvað er öfug öndun?
24 júlí 2024
Hefurðu stundað jóga eða hugleiðslu í einhvern tíma en finnur enn fyrir kvíða? Kannski hefur streita minnkað en þú finnur enn fyrir spennu í hálsi og öxlum? Það getur verið einföld ástæða fyrir þessu – sem auðvelt er að breyta.
Þegar ég kenni öndunaræfingar þá tek ég eftir að margir nemendur mínir eru að iðka svokallaða öfuga öndun. Í raun iðka flest okkar öfuga öndun – a.m.k. stundum. Þetta eru afleiðingar streitumenningar okkar. Í flestum okkar er sympatíski endi taugakerfisins meira virkur en sá parasympatíski. Sympatíski endinn gefur okkur orku til að hlaupa eða bregðast við og heldur okkur á tánum. Hann heldur okkur einnig í fight/flight ham sem getur komið sér vel þegar mikið liggur við. Hjá sumum er hann virkur allan sólarhringinn, alla daga og truflar þannig svefn og meltingu.
Öfug öndun er svona: við öndum að og drögum kviðinn inn, brjóstkassi þenst út og axlir lyftast. Við öndum frá, axlir og brjóstkassi falla saman og kviður þenst út.
Rétt öndun er svona: innöndun og kviður þenst út, útöndun og kviður dregst inn. Brjóstkassi hreyfist lítið.
Taktu nokkra andardrætti án þess að hugsa og sjáðu hvað gerist. Ekki fríka út ef þú ert að anda öfugt. Öfug öndun er yfirleitt orsök streitu og kvíða – eða við erum föst í sympatíska hluta taugakerfisins. Þá er spenna í vöðvunum okkar af því við erum tilbúin að hreyfa okkur. Við þurfum styrk í kvið og meira blóðflæði og súrefni. Svona öfug öndun virkar vel ef við þurfum að verja okkur eða koma okkur úr hættulegum aðstæðum. Hún hjálpar okkur ekki þegar við erum föst í umferðinni eða sitjum og skrifum skýrslu í vinnunni, eða fáum erfitt símtal eða reynum að halda athygli þegar einhver er að tala við okkur.
Við getum horft á öfuga öndun sem eldsneyti fyrir sympatíska enda taugakerfisins og rétta öndun sem vatnið sem slekkur eldinn. Djúpir, hægir andardrættir sem eiga uppruna í þindinni, þar sem brjóstkassi og axlir eru slakar – róa taugakerfið og virkja parasympatíska enda kerfisins. Slík öndun sendir skilaboð til heilans um að allt sé í lagi og það sé í lagi að slaka á huga og líkama. Frumur líkamans fá þau skilaboð að þær séu öruggar og geti haldið áfram viðgerð og vexti.
Ef við erum vön öfugri öndun þá getur það verið krefjandi að snúa henni við. Besta ráðið er að æfa sig – og æfa stutt hverju sinni. Það getur aukið á streituna að ströggla við rétta öndun. Frekar æfa sig í stuttan tíma en æfa sig samt á hverjum degi. Að breyta öndunarmynstri tekur tíma. Suma daga er það erfiðara. Við þurfum að hætta ef okkur fer að líða illa.
Það tekur tíma að þjálfa taugakerfið – en við gerum það með því að anda rétt.