TIL BAKA
Jóga verndar heilann okkar
24 júlí 2024
Jóga verndar heilann þinn! Gleymirðu oft hvar þú settir bíllyklana og finnst þú vera með heilaþoku? Á miðjum aldri byrjar allt að hrörna, þ.m.t. heilinn og úttaugakerfið. Það er bara hluti af því að eldast. Ákveðin svæði í heilanum verða minni og heilafrumum fækkar. Afleiðingin er verra minni, við erum lengur að læra hluti og við upplifum skertari athygli. Bólgur í heilanum vegna aldurs og lífsstíls geta hraðað þessu ferli.
Vísindamenn hafa nú sýnt fram á að ýmislegt er hægt að gera til að hægja á heilaöldrun og jafnvel endurnýja heilafrumur. Eins og með alla hreyfingu þá hjálpar jóga við að bæta blóðflæði til heilans. Ákveðnar jógaæfingar eru þó alveg einstaklega góðar fyrir heilann. Í viðsnúnum stöðum eins og höfuðstöðu og herðastöðu (þar sem höfuð er neðar en hjarta) færist blóð til heilans og færir honum súrefni og næringarefni. Það þarf samt ekki að standa á höfði til að ná þessu fram – stöður eins og hundur og brú eru auðveldari útgáfur af viðsnúnum stöðum sem færa okkur sömu virkni.
Ef við viljum næra heilann þá er gott að gefa sér góðan tíma fyrir slökun og hugleiðslu. Rannsóknir sýna að róandi æfingar eins og jóga, öndunaræfingar og hugleiðsla örva svæði í heilanum sem tengjast minni og því að læra nýja hluti. Róandi æfingar draga líka úr streitu og lækka kortisól sem hefur neikvæð áhrif á heilavirkni.
Jógaæfingar sem hafa jákvæð áhrif á heilann eru m.a. standandi frambeygja, barnið, hundurinn, leggir á vegg (eða á stól), krókódíll og slökunarstaðan.