TIL BAKA

Leiðir til að bæta hreyfingu í lífið

23 júlí 2024

leidir-til-ad-baeta-hreyfingu-i-lifid-thumbnail

Það eru yfirleitt tvær ástæður fyrir að fólk sleppir æfingu: það hefur ekki tíma eða það nennir því ekki. Ef þú nennir því ekki get ég ekki gert mikið fyrir þig – en ef þú telur þig ekki hafa tíma þá get ég kannski gefið þér nokkur ráð. 

Það er mikill misskilningur að halda að æfing sé að mæta í ræktina í klukkutíma 3-5x í viku. Þú þarft ekki að púla í klukkutíma – eða jafnvel lengur – til að klára æfingu. Æfing er í raun bara skuldbinding til að hreyfa sig meira en venjulega – alveg sama hvenær eða hvar. 

Hér eru nokkur tækifæri til að koma inn hreyfingu í annasamt lífið: 

  1. Greindu rútínuna þína og kortleggðu daginn. Hvenær er mest að gera og hvar eru gloppur? Eyðirðu miklum tíma við sjónvarpið? Eða á samfélagsmiðlum? Má ekki minnka það aðeins?
  2. Byrjaðu hægt. Þú getur tekið góða æfingu á 20-30 mínútum ef þú planar vel og heldur einbeitingu. Það er ekkert sem bannar að búta þessa 20-30 mín æfingu niður í nokkrar einingar. Kannski hefurðu tíma í 10 mínútna æfingu að morgni, 10 mínútur þegar þú kemur heim úr vinnu og 10 mínútur meðan maturinn er í ofninum. Allt telur. 
  3. Vertu með plan skrifað niður. Æfingin verður mun markvissari ef þú mætir á staðinn með tékklista. Hér er dæmi: skokka í 10 mín; 25 hnébeygjur; 25 armbeygjur; 30 kviðæfingar. Tékkar við að hverri æfingu lokinni og þetta mun taka mun styttri tíma en þú heldur. 
  4. Vaknaðu 20 mínútum fyrr en venjulega. Þótt það sé bara 1x í viku. Hafðu æfingafötin tilbúin á stól við rúmið áður en þú ferð að sofa. Þú getur meira að segja sofið í þeim. Morgunæfingar fylla þig orku og kveikja á meltingarkerfinu og þannig brennir þú meira yfir daginn. Ef það reynist þér erfitt að vakna fyrr og æfa að morgni, byrjaðu þá smátt með t.d. stuttu og mjúku jógaflæði. Það er hægt að byggja upp þol við öllu – líka því að vakna snemma og rúlla út dýnunni. 
  5. Ef þú drekkur te þá er óþarfi að standa og bíða á meðan vatnið sýður. Taktu 10 eldhúsborðsarmbeygjur og 10 hnébeygjur til skiptis á meðan þú býður eftir katlinum. Ef þú gerir þetta reglulega sérðu fljótlega framfarir – þú nærð fleiri umferðum.
  6. Þú gerir kannski ekki margar æfingar í bílnum á leið í og úr vinnu, en hér er eitt ráð: spenntu kviðinn eins fast og þú getur og haltu í 10 sekúndur. Gerðu þetta 5-10 sinnum í bílnum í hverri einustu bílferð. Þú byggir fljótlega upp sterkari kviðvöðva. 
  7. Ef þú tekur marga fundi í vinnunni er góð hugmynd að taka einstaka fund standandi. Það styrkir vöðvana í fótunum og þú getur styrkt kviðinn í leiðinni með kviðspennum. Þetta gerir líka fundina markvissari og styttri. 
  8. Ef þú stendur í þvottahúsinu að brjóta saman þvott má taka 3-5 hnébeygjur (eða kurteisishneigjur) eftir hverja flík sem þú brýtur saman. Þú verður kannski aðeins lengur að brjóta saman en þú náðir þó allavega að styrkja rass, fætur og kvið í leiðinni. 
  9. Taktu æfingu á meðan maturinn er í ofninum. Ef þú ert að sjóða eitthvað sem þarf suðu í einhvern tíma eða ert með mat í ofninum er alveg óþarfi að sitja og bíða. Það er auðvitað freistandi að kveikja á sjónvarpinu – en af hverju ekki að taka æfingu í staðinn og ljúka henni af? Hér er góð hugmynd að taka HIIT æfingu. Vinna í 30 sekúndur og hvíla í 30 sekúndur. Hér má t.d. sippa, hlaupa á staðnum, taka æfingar með handlóðum, fjallaklifur, burpees, kviðæfingar, bakæfingar og svo mætti lengi telja. Veldu þér 3-4 æfingar og taktu þrjár umferðir. Þú getur borðað kvöldmatinn með góðri samvisku. 

Það er í raun mjög auðvelt að bæta hreyfingu í pakkaðan daginn. Þú HEFUR tíma til að æfa – þetta er bara spurning um að vera dálítið skapandi.