TIL BAKA

Leiðir til að liðka axlir

23 júlí 2024

Axlirnar eru mjög flókin liðamót, haldið saman af fjölda smárra og fíngerðra sina sem tengjast stóru vöðvunum í brjóstkassa og baki. Stífar axlir geta leitt af sér stirðleika í hálsi og baki og hamlað daglega hreyfingu.

Orsakir geta verið ýmsar: 

- Streita

- Spenna

- Ofnotkun (t.d. mikið um lyftingar og lítið af teygjum á móti)

- Mikil farsímanotkun (sms og samfélagsmiðlar)

- Kyrrseta

- Röng/léleg líkamsstaða

- Röng svefnstelling

- Meiðsli

Hér eru nokkrir hlutir sem þú getur gert til að halda öxlunum þínum í lagi: 

  1. Hreyfðu þig! Veldu hreyfingu þar sem þú þarft að nota axlirnar (t.d. sund eða jóga)
  2. Drekktu nóg af vatni, sérstaklega þegar þú ert að hreyfa þig
  3. Farðu reglulega í nudd. Sjálfsnudd með tennisboltum í 2-3 mínútur á dag er líka fínt
  4. Forðastu langa kyrrsetu
  5. Vertu meðvituð/meðvitaður um rétta líkamsstöðu
  6. Reyndu að draga úr stressi með því að fara reglulega í göngu eða jóga

Hér eru nokkrar æfingar sem gott er að gera reglulega til að liðka axlirnar: 

  1. Axlalyftur: lyftu öxlum að eyrum og aftur niður.
  2. Axlahringir: hreyfðu axlir í hringi (upp, aftur, niður) og svo í hina áttina.
  3. Hálsæfingar: leggðu eyra að öxl og haltu í 20 sekúndur (báðar hliðar).
  4. Dyragáttarteygja: stattu í dyragátt og haltu um hurðakarma með báðum höndum. Gakktu örlítið fram á við til að fá teygju og haltu í 15-20 sekúndur.
  5. Axlaopnun með priki eða teygju. Haltu á kústi/priki/teygju með vítt grip, lyftu upp fyrir ofan höfuð, aftur og alveg niður að rassi. Sömu leið til baka. Eftir því sem axlir liðkast má minnka gripið. 

Það tekur tíma að opna axlir og er nauðsynlegt að gera það hægt og rólega. Íslenska leiðin „að láta sig hafa það“ og „þjösnast í gegnum það“ virkar ekki og getur í raun leitt af sér frekari meiðsli.