TIL BAKA
Leiðir til að liðka og styrkja úlnliði
22 júlí 2024
Það eru alltaf nokkrir í hverjum jógatíma sem eru með úlnliðsvandamál. Ástæðurnar geta verið margskonar – sumir eru að jafna sig eftir slys, aðrir vinna hreinlega of mikið með lyklaborð og mús og eru með stöðuga sinaskeiðabólgu.
Úlnliðsvandamál gera það að verkum að erfitt er að leggja þyngd á úlnliðinn en það er einmitt það sem við gerum í hundinum, upphundinum og planka. Hægt er að hlífa úlnliðunum alveg með því að vera á framhandleggjum í hundinum (höfrungur) og plankanum og taka slönguna í stað upphunds. Mér finnst líka sniðugt að vera með handlóð í gólfinu og halda í þau í stað þess að vera með lófana niðri, eða vera á hnefunum. Það minnkar álag á úlnliðina en við töpum ekki styrknum.
Þetta er þó bara skammtímalausn. Úlnliðirnir lagast ekki bara með því að hlífa þeim. Við þurfum að teygja og styrkja. Besta og auðveldasta æfingin er bænastaðan. Hafið bænastöðuna staðsetta fyrir framan brjóstið og passið að lófar séu alveg límdir saman og fingur vísi beint upp. Ýtið nú höndunum blíðlega niður á við í átt að mitti (þannig að bænastaðan fari frá brjóstkassa og niður í átt að nára) án þess að lófar losni frá hvorum öðrum og passið að fingur vísi allan tímann beint upp. Farið eins langt niður og þið getið án þess að bil komi á milli lófa. Haldið í 1-2 mínútur. Gerið þetta 3-4x yfir daginn til að styrkja og liðka úlnliðina.
Önnur æfing sem sniðugt er að gera reglulega er að fara niður á fjóra fætur – líkt og við séum að fara í hund og kött. Látið löngutöng vísa beint fram og haldið í 1-2 mínútur í senn. Sé spennan í úlnliðnum of mikil má færa hendur aðeins framar.
Munum að jóga á að vera heilandi iðkun og er ekki í boði að vinna í sársauka og harka af sér. Það er alltaf hægt að finna leiðir í kringum meiðsli og verki.