TIL BAKA

Mikilvægi heilunar

24 júlí 2024

mikilvaegi-heilunar-thumbnail

Ef líkaminn getur ekki tjáð sig þá mun hugurinn bæla það niður. Hversu oft ákveðum við að hlusta ekki á skilaboð líkamans? 

Líkaminn og hugurinn eru eins og tveggja manna sýning. Þeir treysta á hvorn annan til að skila góðri sýningu. Þeir hreyfa sig í takt og skiptast á að vera í sviðsljósinu. Stundum gerist eitthvað á sýningunni – eitthvað óvænt sem fær tilfinningar til að flæða fram og ógna sýningunni. Stundum nær líkaminn ekki að túlka þessar tilfinningar og þá tekur hugurinn við. Hann hvíslar til mótleikarans: „bældu þetta niður“ – því að sýningin þarf að halda áfram. 

Þetta eru varnarviðbrögð okkar. En þótt hugurinn hafi bælt tilfinningarnar niður þá þýðir það ekki að þær séu farnar. Þær liggja þarna niðri í myrkrinu líkt og í pressupotti – byggja upp gufu, spennu og þrýsting sem verður að lokum of mikil. Þegar líkaminn talar þá þurfum við að hlusta og sýna því sem angrar hann virðingu. 

Svona sendir líkaminn okkur skilaboð: 

Með sársauka og óþægindum. Þetta eru skilaboð um að eitthvað þarfnist aðhlúunar. Ef við ofgerum okkur á dýnunni þá lætur líkaminn vita að við þurfum að hætta eða hægja á okkur. 

Með þreytu. Líkaminn er með náttúrulegan takt sem inniheldur þörf fyrir hvíld og endurnýjun. Þegar við erum þreytt þá eru það skilaboð um að líkaminn þurfi hvíld. Ef við hlustum ekki á skilaboðin þá leiðir það til örmögnunar, minni framleiðni og heilsu okkar er ógnað. 

Með hungri. Líkaminn er með innbyggt kerfi til að stýra inntöku á fæðu. Ef við erum svöng þá eru það skilaboð um að líkaminn þarfnist næringar og orku. Ef við finnum fyrir seddu þá eru það skilaboð um að líkaminn sé með nóg. 

Líkaminn er líka með ákveðin landamæri gagnvart persónulegu rými og snertingu. Okkur finnst flestum óþægilegt ef fólk æðir inn á okkar persónulega rými eða snertir okkur á óþægilegan máta. Þessar líkamlegu varnir eða landamæri eru mikilvægt til að viðhalda öryggistilfinningu, sjálfsstjórn og sjálfsvirðingu. 

Líkami okkar getur túlkað mörk sem tengjast tilfinningalegri og andlegri velmegun. Líðan eins og streita, kvíði eða yfirþyrmandi aðstæður geta gefið okkur merki um að við þurfum að stíga skref til baka, hlúa að sjálfum okkur og leita stuðnings. 

Heilun má líkja við garðvinnu. Það tekur tíma að fegra garð sem hefur verið vanræktur lengi. Áföll fortíðar, tilfinningar sem ekki er búið að vinna úr og neikvætt viðhorf eru eins og arfi sem kæfa fallega garðinn okkar – sjálfið. Arfinn heftir okkur. Hann býr til völundarhús sem við týnumst í. 

Heilunarferlið er flókin en falleg vegferð. Stundum tökum við fleiri skref afturábak en fram – og það er allt í lagi. Oftar en ekki snýst þetta ekki um ró heldur um valkosti. Við getum ekki breytt því sem gerðist en við getum breytt því hvernig atburðurinn hefur áhrif á okkur núna. 

Heilun þýðir ekki að jafna sig á því sem gerðist. Það þýðir heldur ekki að gleyma því sem gerðist. Það þýðir ekki að triggerar muni hætta að koma. Það þýðir ekki að dofi, kvíði eða sársauki sé yfirstaðinn. Heilun þýðir að vinna með söguna, efla sjálfið og styrkja það þannig að atburðurinn vinni ekki gegn okkur til framtíðar. Heilun snýst um að rífa upp arfann og skilja eftir nægilega mikið rými fyrir ánægju, þakklæti og sátt.