TIL BAKA

Nauðsyn liðleika

24 júlí 2024

naudsyn-lidleika-thumbnail

Liðleiki er nauðsynlegur til að viðhalda getu okkar til að framkvæma daglega hluti og hreyfa okkur á auðveldan hátt. Liðleiki bætir hreyfigetu okkar og getur dregið úr hættu á falli og meiðslum. 

Liðleiki snýst ekki bara um að halla fram og ná að snerta tærnar. Að vera liðugur þýðir að liðamótin eru með meiri hreyfigetu og við getum mun auðveldar hreyft okkur. Stirðleiki veldur því að allt í kringum liðamótin okkar herpist saman og styttist. Þetta á við um bandvefinn í kringum liðamótin, sinar, liðbönd, vöðva og húð.

Brjóskið okkar – púðarnir milli beina í kringum liðamót – reiðir sig á hreyfingu liðamótanna til að fá til sín næringu og ná þannig að halda sér heilbrigðum. Minnkandi liðleiki hamlar hreyfingu í kringum liðamót sem þýðir að brjóskið missir vökva. Það þýðir að púðarnir á milli beinanna minnka og það veldur sársauka, alveg sérstaklega í þeim liðamótum sem bera mikla þyngd þegar við stöndum og göngum (hné og mjaðmir).

Skertur liðleiki á einum stað í líkamanum getur valdið vandamálum á öðrum stað. Sem dæmi þá veldur löng kyrrseta því að aftanverð lærin verða stíf. Það getur valdið mjaðmaskekkju (lærin toga aftanverða mjaðmagrind niður) sem hefur þá neikvæð áhrif á hryggsúluna. Það getur svo valdið sársauka í mjóbaki, hálsi og öxlum. 

Fyrir utan það að styðja við góða líkamsstöðu og draga úr hættu á meiðslum þá getur bættur liðleiki einnig bætt samskiptin milli heila og vöðva (samhæfing), aukið blóðflæði og aukið framleiðslu á liðvökva, sem sér um að smyrja liðamótin. 

Nokkur ráð varðandi liðleika: 

- Við þurfum að teygja á öllu – aðferðirnar fara eftir hverju við erum að teygja á. Ef við ætlum að teygja á vöðvum þá er gott að hita aðeins upp t.d. með 10 mín göngu. Upphitun eykur teygjanleika vöðva og dregur úr hættu á meiðslum. Ef við ætlum að teygja á sinum, liðböndum og bandvef þá hitum við ekki upp og teygjum ekki eins kröftuglega. Þessi tegund vefja þarf léttan þrýsting en ekki hita til að ná að gefa eftir. 

- Teygja ætti daglega til að viðhalda liðleika – ekki bara 1-2x í viku. 

- Ekki þarf að taka frá 50-60 í teygjutíma, það má brjóta þetta niður. Það er hægt að standa upp í vinnunni og teygja aðeins á hálsi, öxlum og síðu. Teygja svo aðeins á rassi og lærum þegar við komum heim. Fínt er að halda hverri teygju í 30 sekúndur til að byrja með og lengja svo upp í 2 mínútur. 

- Það eru til tvær tegundir af teygjuæfingum: statísk (að halda stöðu og teygja) og dýnamísk (teygja á meðan við hreyfum okkur t.d. sólarhylling). Þegar markmiðið er að bæta liðleika þá tökum við statískar teygjur. 

- Forðumst að dúa (hafa ekki allir prófað fiðrildi og „blakað vængjunum“?). Dúandi hreyfingar valda því að vöðvarnir spennast meira upp og það getur leitt til meiðsla. 

- Við förum það langt í teygjunni að við finnum mótstöðu og smá óþægindi – en aldrei sársauka. 

- Þegar við teygjum þá einbeitum við okkur að stærstu vöðvum líkamans: bak, háls, mjaðmir, axlir, framhandleggir, kálfar og ökklar. 

Hversu raunhæft er að byggja upp liðleika á stuttum tíma?

Lykilatriðið er að passa að teygja á öllum líkamanum – ekki bara aftanverðum lærum og mjöðmum til að komast í splitt. Ef við einbeitum okkur bara að afmörkuðu svæði þá kemst á ójafnvægi. 

Mikilvægt er að teygja oft og reglulega – ekki bara 1-2x í viku. Sumarið sem ég tók liðleikann í gegn hjá mér þá teygði ég 10 mínútur á dag í heilan mánuð. Það þarf ekki meira en það. Það eiga allir 10 mínútur aflögu – t.d. á meðan verið er að horfa á sjónvarpið!