TIL BAKA
Yömur og Niyömur: ný bók frá Karma
29 júlí 2024
Bókin Yömur & Niyömur: vegferð sjálfsskoðunar fer í prentun eftir verslunarmannahelgi og fer í sölu seinni partinn í ágúst. Bókin er tilvalin fyrir þá sem vilja taka til í sjálfinu og líða betur í eigin skinni.
Bókin mun fást hjá Karma í gegnum heimasíðuna og í völdum verslunum Eymundsson.
Um bókina:
Yömurnar og niyömurnar koma úr þekktu jógariti, Jógasútrurnar eftir Patanjali. Hann segir þar að jóga sé leiðin til að ná stjórn á huganum. Við höfum kannski ekki stjórn yfir hvernig hlutirnir fara en við höfum stjórn yfir því hvernig við bregðumst við þeim.
Jógaheimspeki Patanjalis gefur okkur leiðarvísi til að ákveða hvernig manneskjur við viljum vera hverju sinni. Hugsanir okkar búa til sögur í huganum sem geta haft neikvæð áhrif á sjálfsöryggi og ýtt undir áhyggjur. Það að sætta sig við hlutina færir okkur frið.
Að ofhugsa málin og taka þeim persónulega er ein af stóru ástæðunum fyrir óhamingju og kvíða. Kvíði getur ekki breytt framtíðinni né fortíðinni. Við finnum frið þegar við sættum okkur við ófullkomnun, óvissu og stjórnleysi. Heilbrigði byrjar í huganum.
Í hvert sinn sem við höfum áhyggjur, tölum neikvætt til okkar, berum okkur saman við aðra, dæmum okkur eða upphefjum aðra á okkar kostnað, þá erum við að draga okkur niður. Þá erum við að draga úr orku okkar. Frá þeirri orku erum við svo að draga að okkur fólk og hluti.
Bókinni er skipt upp í kafla þar sem fjallað er um hverja yömu og niyömu fyrir sig. Mælt er með að taka sér ákveðinn tíma til að vinna í hverri yömu eða niyömu, skoða sjálfan sig út frá umfjöllunarefninu, gera æfingarnar og fara þannig markvisst í sjálfsvinnu.